Skip to content

Undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar í Engjaskóla

Í dag var háð undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar sem fer fram í Grafarvogskirkju 20. mars næstkomandi. Nemendur í 7.bekk grunnskólanna taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni og er hún árlegur viðburður. Upplestrarkeppnin er ekki „keppni“ í neinum venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á  bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af. Keppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara. Þátttaka í upplestrarkeppninni stendur öllum 7. bekkjum landsins til boða.

Átta nemendur úr 7. bekk tóku þátt í undankeppninni og stóðu sig allir með afbrigðum vel. Keppendur byrjuðu á því að lesa brot úr sögunni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur.
Að þeim lestri loknum fluttu nemendur ljóð að eigin vali fyrir áheyrendur. Þegar upplestri var lokið og dómnefndin tók til starfa stigu á stokk tónlistarmennirnir þeir Arnar Gabríel og Andri Pétur úr 7. bekk, en þeir fluttu saman tvö lög, Arnar á píanó og Andri á trommur.
Arnar Gabríel flutti síðan frumsamið tónverk á píanóið eftir sjálfan sig sem hann nefnir Sálarstrauma.  Flutningur drengjanna sló í gegn og uppskáru þeir mikið klapp frá áheyrendum.

Þeir tveir nemendur sem dómnefndin valdi sem fulltrúa Engjaskóla á Stóru upplestarkeppnina eru Jón Bjartur Atlason og Sóley Kría Atladóttir. Þau jón Bjartur og Sóley Kría eru verðugir fulltrúar okkar og óskum við þeim góðs gengis í næstu viku.

Dómnefnd var skipuð af þeim Kristínu Höllu Þórisdóttur, Fjólu Karlsdóttur og Vigdísi V. Pálsdóttur.
Kristín Halla og Fjóla eru kennarar í Víkurskóla og Vigdís, sem er nemendum afar kær er lestraramma Engjaskóla og fyrrverandi kennari.

Áheyrendur í sal voru allir nemendur í 6. og 7. bekk.
Dómnefndin hafði orð á því að áheyrendur ættu skilið mikið hrós fyrir góða hlustun og fyrirmyndar framkomu í hvívetna.

Hér eru fleiri myndir og myndbönd.