Engjaleikarnir 2022

Engjaleikar eru miðvikudaginn 28. september og verða þeir í anda fjölgreindaleika.
Hugmyndin að fjölgreindaleikum er byggð á kenningum Howards Gardners um fjölgreindir þar sem gengið er út frá því að allir séu góðir í einhverju og að allir eigi að fá tækifæri til að fást við það sem þeir eru sterkir í.
Dagurinn hefst með því að nemendur mæta í salinn og fá kynningu á skipulagi.
Nemendur í 7. bekk eru hópstjórar og fá með því aukna ábyrgð. Hópstjóri aðstoðar, t.d. yngri nemendur við að fara á milli stöðva og halda utanum hópinn.
Með Engjaleikum náum við að búa til eftirminnilegan atburð þar sem nemendur og starfsfólk eiga góða daga við leik og störf.
Við ætlum að bjóða upp á fjölbreyttar þrautir þar sem allir fá tækifæri á að spreyta sig við mismunandi verkefni og láta ljós sitt skína.
Nemendur verða í skólanum samkvæmt stundaskrá.
Meðfylgjandi eru skilgreingar á fjölgreindunum
Fjölgreindir Gardners
- Málgreind Að geta komið fyrir sig orðum bæði munnlega og skriflega. Næmi fyrir merkingu orða og tungumáls.
- Rök- og stærðfræðigreind Að geta notað tölur á árangursríkan hátt. Næmi fyrir tengslum, staðhæfingum og röklegum mynstrum. Að geta flokkað, ályktað, alhæft og reiknað út.
- Rýmisgreind Að geta umskapað hið sjónræna og rúmfræðilega umhverfi sem við lifum í. Næmi fyrir litum, lögum, formi, línum, vídd og þeim tengslum sem eru á milli þessara fyrirbæra og að geta ummyndað þau.
- Líkams- og hreyfigreind Að geta notað líkamann til að tjá sig um tilfinningar sínar og hugmyndir. Leikni í að geta búið til hluti. Líkamleg færni eins og jafnvægi, styrkur, samhæfing og sveigjanleiki.Hæfni í að beita verkfærum.
- Tónlistargreind Að geta skynjað, tjáð, skapað og metið tónlist. Næmi fyrir takti, laglínu og tónhæð.
- Samskiptagreind Að geta skilið og greint skap, fyrirætlanir og tilfinningar hjá öðru fólki. Næmi fyrir svipbrigðum, látbragði og rödd. Hæfni til að eiga í samskiptum við annað fólk.
- Sjálfsþekkingargreind Að einstaklingur skilji sjálfan sig. Þetta þýðir að einstaklingur veit hver hann er, hefur skýra sjálfsmynd og þekkir vel veikleika sína og styrkleika. Hann þekkir sitt eigið hugarástand, innri hvatir, skapgerð og langanir. Hann hefur einnig hæfni til sjálfsögunar.
- Umhverfisgreind Að þekkja tegundir og greina skyldar tegundir í umhverfinu. Leikni í að kortleggja skyldleika milli tegunda.
- Tilvistargreind Að bera “umhyggju fyrir grundvallarmálefnum lífsins” (Armstrong, 2000, bls. 139). Hæfni til að staðsetja sig í lífinu.