Skip to content

Göngum í skólann 2022

Göngum í skólann verður sett í Melaskóla, í dag, þann 7. september,  að viðstöddum góðum gestum. Allar nánari upplýsingar er að finna Göngum í skólann (gongumiskolann.is)

Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. Með þessu er ætlunin að hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna en hreyfing vinnur ,m.a. gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Þar að auki er markmiðið að draga úr umferð við skóla og stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf.

Í ár tekur Ísland þátt í 16. skipti í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi.  Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 7. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer Göngum í skólann verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 7. október.

 

Engjaskóli er skráður til þátttöku í Göngum í skólann nú eins og undanfarin tvö ár og munum við hafa okkar eigin hátt á þáttöku. Okkar nemendur byrja miðvikudaginn 14. september og taka þátt í 15 skóladaga eða til 4. október.