Skip to content

Hamingjuhópurinn

Sælt veri fólkið.
Nú á haustdögum var ákveðið að fara af stað með verkefni sem nefnist Hamingjuhópurinn.
Engjaskóli fékk styrk frá Reykjavíkurborg til að innleiða verkefnið. Því eru spennandi tímar hjá nemendum á miðstigi og okkur sem stöndum að verkefninu að sjá hvernig fram vindur.

Verkefnið miðar að því að draga úr einmanaleika nemenda á miðstig en það ánægjulega við verkefnið eru fiðrildaáhrifin sem það hefur, því nemendur á yngra stigi taka virkan þátt.
Við skólalok næsta vor 2022 verður tekin saman skýrsla um það hvernig til tókst og hvort ávinningur hafi orðið af þessu verkefni.

En hvað er Hamingjuhópurinn?
Fyrir nokkrum árum síðan fékk Bryndís Ingimundardóttir kennari hugmynd sem kviknaði út frá því að hún sá að sumir nemendur virtust ekki eiga vini eða tilheyra vinahóp í skólanum. Hún útbjó því verkefnið Hamingjuhópurinn. Þannig spratt upp hugmyndin og að koma þessu verkfæri í hendur nemenda.Megintilgangur Hamingjuhópsins er því að draga úr einmanaleika barna en rannsóknir sýna að einmanaleiki barna í 5.-7. bekk er um 8% -17% skv. niðurstöðum hjá Rannsóknum og greiningu (Rannsóknir og greining, 2019, bls. 14).
Hverjir sitja í Hamingjuhópnum?
Farið var í stofur og verkefnið kynnt öllum á miðstigi.
Allir á miðstigi mega óska eftir að vera með í Hamingjuhópnum en öll vinnum við saman að því að bæta skólasamfélagið, þannig að engin upplifi sig einmana í skólanum og gerum lífið skemmtilegra! Nemendur skrifa nafnið sitt á miða, JÁ ég vil vera með í Hamingjuhópnum eða NEI.

Síðan eru tveir dregnir úr fyrir hvern árgang þannig að sex nemendur sitja í Hamingjuhópnum. Nemendur mega hætta í hópnum þegar þeir vilja og nýir koma þá inn í staðinn.
Nemendur Hamingjuhópsins eru í forgrunni en þeim til aðstoðar eru kennarnir  Bryndís, María Védís og Unnar.


Vinnuáætlun Hamingjuhópsins
Tilgangurinn er að bæta og auka vellíðan og draga úr einmanaleika nemenda.
Hamingjuhópurinn leggur fyrir nafnlausar spurningar um líðan á nokkurra vikna fresti.
Hamingjuhópurinn kynnir svo niðurstöður fyrir samnemendum með aðstoð súlu- og kökurita. Þær niðurstöður eru alltaf sýnilegar á Hamingjuvegg skólans, ásamt því viðmóti sem nemendur miðstigs hafa sammælst um að viðhafa til að draga úr einmanaleika.