Síðustu skóladagarnir í júní

Þessir síðustu skóladagar í Engjaskóla skólaárið 2020-2021 hafa einkennst af útiveru, leikjum og gleði.
Mánudaginn 7. júní fóru allir nemendur skólans út um borg og bý: Klambratún, Úlfarsfell, gönguferð á Geldinganes og Húsdýragarðinn.
Þriðjudaginn 8. júní gengu síðan allir nemendur út í Gufunesbæ. Þar voru alls kyns leiktæki í boði og glæsileg aðstaðan nýtt út í ystu æsar. Þar voru grillaðar pylsur og síðan arkað aftur heim á leið.
Miðvikudagurinn 9. júní var tileinkaður útileikjum. Íþróttakennarar komu fyrir leikjastöðvum á skólalóðinni og síðan fóru nemendur á milli og nutu þess að prófa ólíka leiki, allt frá stígvélakasti til reiptogs og ýmislegt þar á milli.
Íþróttadagurinn var skertur dagur og þess vegna lauk skóladeginum á hádegi.
Þrátt fyrir rysjótt veður þá hafa nemendur skemmt sér vel og allir staðið sig með stakri prýði, einstaklega jákvæðir og skemmtilegir nemendur.