Funduðu með umhverfisráðherra

Mikael Örn Eðvaldsson og Sóley Kría Atladóttir, nemendur í 5. bekk Engjaskóla, funduðu með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, á Borgarbókasafninu í Grófinni þann 19. maí.
Um var að ræða borgarafund þar sem þátttökuskólar í LÁN (Listrænt ákall til náttúrunnar) hittu ráðherra og gátu lagt fyrir hann spurningar um umhverfismál.
Allir nemendur í 5. bekk komu saman fyrir fundinn og ákváðu í sameiningu hvaða spurningar ætti að leggja fyrir ráðherra. Mikael Örn og Sóley Kría voru síðan valin sem fulltrúar 5. bekkjar. Spurningin frá 5. bekk var: Hvað getur Ísland gert til að minnka plastnotkun og telur þú að Ísland nái að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030?
Mikael Örn og Sóley Kría stóðu sig frábærlega á fundinum og voru skólanum sínum til mikils sóma.